Snæfríður Sól náði svokölluðu B-lágmarki í 200 metra skriðsundi í mars á þessu ári. Það dugði ekki eitt og sér en þar sem Ísland á rétt á sæti fyrir einn karl og eina konu þá fékk hún sæti á Ólympíuleikunum.
Alþjóða sundsambandið, FINA, staðfesti þetta um helgina og ÍSÍ staðfesti við íþróttadeild RÚV í dag. Snæfríður Sól mun synda í undanrásum 200 metra skriðsunds þann 26. júlí og undanrásum 100 metra skriðsunds þann 28. júlí.
Snæfríður Sól verður eina íslenska konan sem keppir á leikunum en alls fengu þrír karlar keppnisrétt. Anton Sveinn McKee – sundmaður, Ásgeir Sigurgeirsson – skotfimi og Guðni Valur Guðnason – kringlukast, höfðu allir fengið keppnisrétt áður en staðfest var að Snæfríður Sól fari á leikana.
Verða þetta hennar fyrstu Ólympíuleikar en þeir Anton Sveinn, Ásgeir og Guðni Valur hafa allir tekið þátt á allavega einum Ólympíuleikum á ferli sínum.