Rannsóknir hafa sýnt að það getur haft verri áhrif á heilsu okkar og líðan að hafa miklar áhyggjur af því að missa starfið okkar, heldur en að lenda síðan í því að missa starfið.
Í kjölfar hertra reglna og óvissu um framhaldið næstu vikur og mánuði, geta hver mánaðamót hins vegar tekið á.
Verður mér sagt upp núna? Verður einhverjum sagt upp?
Að hafa áhyggjur af atvinnuöryggi í langan tíma tekur á.
Og oft eru það dagarnir rétt fyrir mánaðamót sem fólki finnast erfiðastir.
Það er hins vegar til svo mikils að vinna að reyna að sporna við þessum kvíða og áhyggjum. Því almennt vegnar okkur betur þegar okkur líður vel.
Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað.
1. Bjartsýni er vinna
Eitt það besta sem við getum gert fyrir okkur sjálf er að halda í bjartsýnina og jákvæðnina. Enda birtir alltaf upp um síðir, sama hvað gerist hjá okkur.
Að vera bjartsýn og jákvæð hljómar kannski eins og óvinnandi vegur þegar kvíðinn er til staðar.
En þá er gott að muna að bjartsýni og jákvæðni krefst ákveðinnar vinnu hjá okkur sjálfum.
Við þurfum að hafa fyrir því að hrista af okkur áhyggjurnar og grípa í jákvæðnina þegar að við finnum óttatilfinninguna grípa um okkur. En það er þess virði að leggja á okkur þessa vinnu.
Við getum líka gert ýmislegt annað til að draga úr áhyggjunum. Vera til dæmis vakandi yfir atvinnuauglýsingum, þó ekki nema til að sjá hverjir eru að auglýsa og hvers konar störf eru í boði.
Síðan getum við lagt áherslu á að efla okkur í núverandi starfi og á þeim vinnustað þar sem við erum núna. Ef vinnustaðurinn okkar er til dæmis að ganga í gegnum erfiðleika, getum við spurt okkur sjálf: Er eitthvað sem ég gæti gert til að hjálpa meira til? Ætti ég að tala við yfirmanninn minn og bjóðast til þess? Og ef svo er, hvað gæti ég þá gert?
Þegar að við erum bjartsýn eigum við oft auðveldara með að hugsa út fyrir boxið. Við fáum fleiri hugmyndir og sjáum oft fyrr lausnir á vandamálum.
2. Trompspilin þín
Á tímum sem þessum er um að gera að sýna hversu megnug/ur þú ert sem starfsmaður.
Gefðu þér tíma í að skoða hvort þú ert að nýta styrkleikana þína til fulls og taktu ákvörðun um að sýna oftar frumkvæði ef þér finnst það vanta.
Að sýna frumkvæðni getur falist í mörgu. Til dæmis því að bjóða sig fram í að leysa eitthvað ákveðið verkefni. Eða að aðstoða samstarfsfélaga sem er með mikið á sinni könnu. Og svo framvegis.
3. Þjálfun og framtíðarsýnin
Hvort sem þú heldur áfram í þessu starfi lengi í viðbót eða ekki, er alltaf gott að skoða það reglulega hvort við erum ekki örugglega „up to date.”
Eða þyrftum við að uppfæra okkur í einhverri þekkingu?
Kunnum við á allt það nýjasta nýtt sem vinnustaðurinn okkar er að leggja áherslu á? Eða væri gott að læra eitthvað betur? (hvað? hvernig?)
Að vera vakandi yfir sinni eigin hæfni og getu og vera meðvituð um þjálfun og endurmenntun er reyndar atriði sem fólk á vinnumarkaði þarf að vera meðvitað um.
Því til viðbótar við Covid, er heimurinn einnig að fara í gegnum fjórðu iðnbyltinguna og fyrirséð að mörg störf munu breytast og glatast, en önnur og ný störf verða líka til.
4. Besta hvatningin: Styrkleikarnir
Það getur verið ágætt að dusta rykið af ferilskránni okkar þegar og ef við finnum til kvíða vegna atvinnumissis og/eða erum að vinna í því að vera bjartsýn fyrir okkar eigin hönd.
Því í raun er ferilskráin okkar fyrst og fremst samantekt á þekkingu, reynslu, styrkleikum og þegar áunnum áföngum.
Að sjá það á prenti hvað við búum í rauninni yfir mörgum jákvæðum þáttum sem starfsmaður getur verið ágætis hvatning fyrir okkur sjálf.
Sumum finnst kannski óþægilegt að vinna ferilskrá til þess eins að sjá betur styrkleikana sína. En þá er um að gera að hvetja okkur til dáða með því að koma styrkleikunum okkar niður á blað í öðru formi.
Annað sem getur hjálpað er að tala oftar um það í vinnunni hvað við erum að gera eða höfum gert. Mörgum kann að finnast þetta erfitt því almennt erum við fæst að berja okkur of mikið í brjóst. En hvað ef yfirmaðurinn þinn er ekki einu sinni upplýstur um hvað þú gerir mikið eða getur gert mikið? Er þá ekki frekar þess virði að reyna að koma því á framfæri?
5. Fjármálin: Um hvað snýst óttinn þinn?
Ótti um atvinnumissi er oft beintengdur við áhyggjur af peningum. Því vinnan er jú okkar framfærsluöryggi.
Þegar og ef við höfum áhyggjur af atvinnumissi, er ágætt að gefa sér tíma í að skoða fjármálin.
Getum við sparað með því að skera eitthvað niður? Getum við lagt þá upphæð til hliðar sem varasjóð?
Hvernig væri staðan ef þér yrði sagt upp?
Gott er að búa til sviðsmyndir því þá sjáum við kannski betur hvað við værum að horfa á langan tíma. Ímyndum okkur til dæmis uppsögn með þriggja mánaða fyrirvara plús orlofsuppgjör. Hvað er það langur tími? Hvað segja stjórnvöld um úrræði næstu mánuða? Hvernig lítur þetta þá út fyrir þig og þitt heimili miðað við til dæmis sex til níu mánaða tímabil eftir uppsögn?
Það getur dregið úr vanlíðan og kvíða ef okkur líður eins og við séum við stjórn og séum með einhvers konar aðgerðarplan tilbúið.