Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögmönnum ÍAV og 105 Miðborgar en félögin hafa átt í deilum að undanförnu vegna framkvæmda á Kirkjusandi í Reykjavík. Hafa deilurnar meðal annars ratað inn á borð sýslumanns þar sem settar hafa verið fram kröfur um kyrrsetningu.
Greint var frá því í mars að allt væri á suðupunkti í deilunum um byggingarnar á Kirkjusandi. Þá hafði 105 Miðborg, sem er í stýringu Íslandssjóða, ráðið nýjan verktaka til að ljúka framkvæmdum á Kirkjusandsreitnum eftir að hafa rift samningi við ÍAV um byggingu þriggja húsa upp á um tíu milljarða króna.
ÍAV telur riftunina ekki standast lög og hefur stefnt 105 Miðborg og Íslandssjóðum.
Í maí kom svo fram að ÍAV færu fram á að 105 Miðborg og Íslandssjóðir, sem eru í eigu Íslandsbanka, greiði félaginu 3,8 milljarða í tengslum við deilurnar. Á sama tíma var greint frá því að 105 Miðborg hafi áður hafnað kröfum ÍAV og væri að undirbúa gagnstefnu.
Er meðal annars deilt um tafir á afhendingu húsanna og lagfæringar sem 105 Miðborg telur að ÍAV eigi að bæta og greiða fyrir. Í yfirlýsingu sem ÍAV sendi frá sér í byrjun mars kom fram að fyrirtækið hafi ekki fengið greitt vegna vinnu við verkið frá lokum nóvember í fyrra.