Samkvæmt erlendum fréttum fannst lík Vitaly Shishov hangandi í tré og lögregla rannsakar nú hvort hann hafi verið myrtur og morðið sviðsett sem sjálfsmorð.
Shishov yfirgaf heimili sitt á mánudagsmorgun og er talinn hafa farið út að hlaupa. Hann virðist hafa hringt nokkur símtöl en lagt á þegar svarað var. Lögregla hefur síma Shishov undir höndum.
Samkvæmt hvítrússneska blaðamanninum Tadeusz Gizcan segja vinir Shishov að honum hafi verið veitt eftirför á síðustu misserum. Hann neyddist til að flýja Belarús síðasta haust eftir að hafa tekið þátt í mótmælum í Gomel.
❗️Vitaly Shishov was found dead this morning. His body was hanged on a tree. Ukrainian police opened an investigation under Article 115 (premeditated murder). They believe it may be a murder disguised as a suicide. Shishov was the head of organisation helping Belarusians in exile pic.twitter.com/RIc4AdCktz
— Tadeusz Giczan (@TadeuszGiczan) August 3, 2021
Shisov var framkvæmdastjóri nokkurs konar áfangahúss í Úkraínu, þar sem Hvítrússar geta fengið stuðning við að hefja nýtt líf eftir að hafa yfirgefið heimalandið.
Fjöldi fólks hefur flúið Belarús í kjölfar afar umdeildra forsetakosninga í landinu í ágúst í fyrra.
Meðal þeirra er spretthlauparinn Krystina Timanovskaya, sem hefur fengið dvalarleyfi í Póllandi eftir að hafa sagst óttast um öryggi sitt í kjölfar þess að hafa gagnrýnt þjálfara Belarús á Ólympíuleikunum sem nú standa yfir í Tókýó.
Þá vakti það heimsathygli þegar blaðamaðurinn Roman Protasevich var handtekinn eftir að flugvél sem hann ferðaðist með var neydd til að lenda.