Opnunarhátíð Hinsegin daga verður í Gamla bíó í kvöld kvöld. Húsið verður opnað klukkan sjö, en hátíðardagskrá hefst klukkan átta. Þar kemur fram úrval hinsegin listamanna. Þetta segir í tilkynningu frá stjórn Hinsegin daga.

Fjölmargir viðburðir verða á Hinsegin dögum, sem standa til sunnudagsins áttunda ágúst. Þennan fyrsta dag verður fjarfundur með Aron-Winston Le Fevre mannréttindafulltrúa Copenhagen Pride 2021, um ástandið í Evrópu. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78, stýrir fundinum, sem er haldinn í Þjóðminjasafninu og hófst klukkan 13.

Þekking og orðfæri innan hinsegin samfélagsins þróast hratt og kl. 15:30 gefst tækifæri til að fræðast saman um geima og víddir hinseginleikans í afslöppuðu umhverfi þar sem engin spurning er heimskuleg. Fræðsluna, sem kallast Hinsegin 101 fyrir hinsegin fólk, leiðir Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ’78, en viðburðurinn er haldinn í Máli & Menningu á Laugavegi.

Samtal kynslóða verður í Máli og menningu kl. 17, en þá spjalla þrír einstaklingar af þremur kynslóðum saman, þau Mars M. Proppé, Hilmar Hildar Magnúsar og Andrea Jónsdóttir. Þau segja frá sjálfum sér tvítugum og leiðinni þangað sem þau eru núna.

Á hverjum degi er hægt að velja um ýmsa viðburði. Á opnunarhátíð og fræðsluviðburðum verður hólfaskipting, grímuskylda og skipað til sætis. Einnig þurfa allir þeir sem sækja viðburði að skrá sig með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skráning er undir hverjum viðburði á dagskránni á hinsegindagar.is

Viðburðum verður streymt beint á Facebook-síðu Hinsegin daga, svo þau sem ekki treysta sér til að mæta eða fengu ekki miða eiga kost á að fylgjast með dagskránni í beinni.

