Smit hélt nefnilega marki sínu hreinu þegar nýliðar Leiknis unnu 1-0 sigur á Íslandsmeisturum Vals í 16. umferð Pepsi Max deild karla í fótbolta í gær.
Sá síðasti til að halda hreinu í deildarleik á móti Val var Stjörnumarkvörðurinn Haraldur Björnsson sem náði því í markalausu jafntefli 13. júlí 2020. Síðan var liðinn 391 dagur.
Frá þessum leik í sjöttu umferðinni í fyrra þá höfðu Valsmenn skorað í 27 deildarleikjum í röð fyrir leikinn í Efra Breiðholtinu í gær.
Valsliðið hafði skorað í fimmtán fyrstu deildarleikjum sínum í sumar og Valsmenn skoruðu einnig í tólf síðustu deildarleikjum sínum þegar þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrrasumar.
Tveir markmenn héldu hreinu á móti Val í Pepsi Max deildinni í fyrra því auk Haraldar þá hélt KR-markvörðurinn Beitir Ólafsson einnig marki sínu hreinu í fyrstu umferðinni. Það var líka síðasti leikurinn þar sem Valsmenn skoruðu hvorki mark né fengu stig í deildinni þar til á Domusnovavellinum í gær.
Þetta er reyndar ekkert nýtt hjá Guy Smit því hann var þarna að halda marki sínu hreinu í fjórða sinn í síðustu fimm deildarleikjum og alls í sjötta sinn á tímabilinu.