Morgunblaðið hefur þetta eftir Diljá Mist Einarsdóttur, aðstoðarmanni utanríkisráðherra og einum nefndarmanna. Upphaflega stóð til að skila minnisblaðinu til ráðherra fyrir helgi, en töf varð á.
Haft er eftir Diljá Mist að hún geri ráð fyrir að félagsmálaráðherra muni svo leggja minnisblaðið fyrir ríkisstjórn á morgun, þriðjudag.
Flóttamannanefnd var kölluð saman í síðustu viku vegna þess ástands sem uppi er í Afganistan eftir að talibanar lögðu undir sér höfuðborgina Kabúl og svo gott sem landið allt, og var henni falið að gera tillögur til stjórnvalda um hvernig taka megi á móti flóttamönnum frá landinu.
Búist er við miklum fólksflutningum frá landinu á næstu misserum vegna uppgangs Talibana.