Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari Víkings, var svekktur með uppgjöf liðsins í seinni hálfleik.
„Mér fannst ellefu marka tap ekki gefa rétta mynd af leiknum. Góð lið þau keyra þegar andstæðingurinn slakar á og við gjörsamlega lögðumst niður á síðustu tólf mínútum leiksins. Það var rafmagnslaust í Víkinni.“
„Á þessum kafla í seinni hálfleik þá gefum við þetta frá okkur. Ég er ekki ósáttur með leikinn. Við spiluðum fínan leik þar sem við komum okkur í færi en ég get ekki sætt mig við það þegar liðið fór að spila sem einstaklingar og gefa átta hraðarupphlaup,“ sagði Jón Gunnlaugur eftir leik.
Jón Gunnlaugur sagði að góð byrjun Víkings væri einum manni að þakka og það væri markmaður liðsins Jovan Kukobat.
Valur komst yfir um miðjan fyrri hálfleik og þá átti forskot Vals aðeins eftir að stækka.
„Mér fannst menn ekki missa trú á verkefninu þrátt fyrir að Valur komst yfir. Við missum Jóhann Reyni Gunnlaugsson úr leiknum þegar hann var kýldur í andlitið af varnarmanni Vals. Það hafði áhrif á liðið okkar.“
„Ég var ánægður með liðið í 46 mínútur en mjög ósáttur með hvernig liðið endaði leikinn,“ sagði Jón Gunnlaugur að lokum.