Spænska dagblaðið El País segir að mótmælendurnir séu sex. Þeir krefjast þess að Pedro Sánchez, forsætisráðherra, ræði við þá. Mótmælendurnir hafi komið inn í safnið sem gestir um klukkan tíu að staðartíma í morgun en síðan hreiðrað um sig í einum sýningarsalnum.
Öryggisverðir reyna að koma fólkinu burt og tveir mótmælendur hafa þegar verið handteknir.
Reuters-fréttastofan segir að einn mótmælendanna hafi hótað því á Twitter-reikningi samtaka fórnarlamba eitrunarinnar að þeir ætli sér að taka inn pillur og svipta sig lífi sex klukkustundum eftir að það hóf setuverkfall sitt í listasafninu.
Um sex hundruð manns létust þegar þeir innbyrtu mengaða repjuolíu á Spáni árið 1981. Fleiri en tuttugu þúsund manns urðu fyrir eituráhrifum. Rúmlega fjörutíu innflytjendur og sölumenn olíunnar voru sakaðir um að bera ábyrgð á eitruninni. Olían var framleidd til iðnaðarnota en seld sem matarolía, að því er sagði í umfjöllun New York Times um réttarhöldin yfir þeim frá árinu 1987.