Ráðgjafafyrirtækið Saffron er ýmsum Íslendingum kunnugt en það er í nánu samstarfi við brandr vörumerkjastofu.
„Saffron eru nánir samstarfsaðilar okkar og hafa verið að starfa með brandr á undanförnum misserum í stefnumótunar verkefnum bæði á Íslandi og erlendis. Meðal annars hafa þeir starfað með okkur í stefnumótunarvinnu með Högum hér á landi svo eitthvað sé nefnt,“ segir Friðrik Larsen, framkvæmdastjóri brandr og dósent við Háskóla Íslands.
Þá segir hann teymi Saffron mikla Íslandsvini sem hafi áhuga á frekari samstarfi við íslensk fyrirtæki.
En hvernig fannst þessum Íslandsvinum að starfa fyrir Facebook?
„Þeir láta vel af samstarfinu og munu birta dæmirannsókn um verkefnið bráðlega,“ segir Friðrik. Þegar það verður, mun brandr fjalla um niðurstöðurnar.
„Það verður vafalaust áhugavert fyrir markaðsfólk að fá innsýn í þetta verkefni.“
Sitt sýnist þó hverjum um hið nýja nafn Meta.
Til að mynda sagði BBC frá því í frétt að nafnið hefði valdið nokkrum usla í Ísrael, þar sem meta er borið fram eins og kvenkynsorðið dauði á hebresku. Þá hafa sumir haft efasemdir um tímasetninguna á nýja nafninu og lýst því yfir að með nýju nafni sé Mark Zuckerberg fyrst og fremst að reyna að dreifa athyglinni frá öðrum og erfiðum málum sem nú beinast að samfélagsmiðlinum Facebook.
Friðrik segist hins vegar hæstánægður með nafnavalið.
Nýja nafnið Meta stendur fyrir enska orðið Beyond eða að handan og vísar til framtíðarinnar.
Nýja nafnið og myndmerkið undirstrikar vel þá stefnu sem þeir hafa mótað sér til framtíðar og samræmist henni á skýran hátt eins og góðu vörumerki sæmir því rekstrarstefna og vörumerkjastefna eru eins og hægri og vinstri fótur fyrirtækis og eiga ætíð að ganga í takt,“
segir Friðrik.
Þessa dagana standa annars yfir tilnefningar fyrir Besta íslenska vörumerkið árið 2021. Tilnefningar sendast í gegnum vefsíðuna brandr.is og rennur frestur til að senda inn tillögur næstkomandi sunnudag.
Atvinnulífið á Vísi mun fjalla nánar um málið þegar verðlaunahafar verða kynntir í byrjun febrúar á næsta ári.
Þegar hefur verið tilkynnt hverjir sitja í valnefnd fyrir Bestu íslensku vörumerkin 2021 en hún samanstendur af einstaklingum sem teljast framúrskarandi aðilar úr atvinnulífinu og fræðasamfélaginu.
Þar af er 40% af hópnum einstaklingar sem sátu einnig í valnefnd í fyrra, valdir aftur með slembiúrtaki. Hin 60% af hópnum eru einstaklingar sem sitja í valnefndinni í fyrsta sinn.
