Helgi lét af störfum sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar eftir að kona kvartaði undan óviðeigandi ummælum hans og snertingu á vinnustaðnum. Þá er Helgi sagður hafa áreitt aðra konu kynferðislega í kringum aldamótin. Telma Halldórsdóttir lögmaður og vinkona konunnar skilaði skömminni fyrir hennar hönd eins og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Í færslu sem Helgi skrifaði á Facebook-síðu sína í gærkvöldi baðst hann afsökunar á heðgun sinni og sagðist ljóst að framkoma hans, orðfæri og hegðun hafi sært, mógðað og látið samferðarfólki hans líða illa í návist hans.
Athygli vakti að Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, og Karl Axelsson, hæstaréttardómari, líkuðu við færslu Helga. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gaf í skyn að íslenska réttarkerfið væri haldið „gerendameðvirkni“ í Facebook-færslu sem hún ritaði í gærkvöldi.
Í annarri færslu sagði Guðfinna að Karl hefði fjarlægt hana af vinalista sínum og lokað á hana á Facebook eftir að hún birti upphaflega færslu sína með gagnrýni á þá Benedikt.
Benedikt segir þá gagnrýni ómaklega og vísar á bug að gerendameðvirkni sé við Hæstarétt í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis.
„Ég like-aði færslu Helga vegna þess að ég kunni að meta þá iðrun og einlægni sem fólst í henni. Batnandi manni er best að lifa,“ segir í svari Benedikts.
Telur tjáninguna rúmast innan marka siðareglna dómara
Skammt er liðið frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, starfandi dómsmálaráðherra, gagnrýndi Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara, fyrir umdeilda framgöngu hans á samfélagsmiðlum.
Helgi Magnús hafði þá líkað við færslu Sigurðar G. Guðjónssonar, hæstaréttarlögmanns, sem birti brot úr lögregluskýrslu af ungri konu sem gerði sátt við Kolbein Sigþórsson, landsliðsmann í knattspyrnu, vegna ofbeldis á skemmtistað.
Áslaug Arna sagði það mjög vafasamt af vararíkissaksóknara að tjá sig með slíkum hætti á samfélagsmiðlum.
Benedikt segir í svari sínu til Vísis að samkvæmt siðareglum dómara skuli þeir ávalt gæta varkárni í opinberri umfjöllun um umdeild og viðkvæm málefni, þar á meðal á samfélagsmiðlum.
„Ég tel að tjáning mín með þessum hætti rúmist vel innan þeirra marka,“ segir forseti Hæstaréttar.