Fjallað var um mál hryssunnar Lánar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku. Þar lýsti eigandi hennar, Þeba Björt Karlsdóttir, því að hestanafnanefnd hefði hafnað beiðni hennar um að fá nafnið skráð á hryssuna í upprunaættbók íslenska hestsins á grundvelli þess að það væri hvorugkynsorð. Í ættbókina eru skráð öll hross af íslenska hestakyninu hvar sem þau eru fædd í heiminum.
Leikur einn var hins vegar að fá nafnið Lán, sem í þessu tilfelli væri kvenkyns og beygðist eins og kvenmannsnafnið Rán, samþykkt hjá mannanafnanefnd.
Kristín Halldórsdóttir annar nefndarmanna í hestanafnanefnd segir í svari við fyrirspurn fréttastofu um störf nefndarinnar að árið 2016 hafi Alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, ákveðið að skýra reglur varðandi þau nöfn sem skráð eru í ættbókina. Hún bendir á að aðildarlönd séu 22 talsins.
„Ákveðið var að fylgja þeirri hefð að nöfn sem skráð eru í ættbókina skuli vera á íslensku; kvenkyns fyrir hryssur og karlkyns fyrir hesta. Þegar nöfnum er hafnað er það í lang flestum tilvikum vegna þess að ekki er hægt að finna neina tengingu við íslenskt mál eða þá að um hvorugkynsorð er að ræða.“
Fiðrildi, Granít og Hvide
En hver eru nöfnin sem ekki hafa hlotið hljómgrunn innan hestanafnanefndar? Dæmi um þau má finna hér fyrir neðan:
Hvorugkynsorð: Apótek, Apparat, Dýnamít, Dómínó, Fiðrildi, Fjör, Granít, Heljargljúfur, Hjarta, Írafár, Kirsuber, Koníak, Leiðarljós, Lerki, Leyndarmál ofl.
Ekki íslenska: Panther, Mithrandir, Lovely, Lord Mason, Kopernika, Ranumi, Jaade, Jotne, Izmir, Idawen, Hvide, Hiromi, Heidewitzka, Harlequin, Grazia, Ganymed, Froshi, Euphoria, Deijanira, D´artagnan, Caesar, Berenice, Bahia, Avicii, Attica og svo mætti lengi telja.