Í grein NPR segir að mögulega hafi eldgosið verið háværasti atburður á jörðinni í rúma öld.
Starfsmenn Rauða krossins og embættismenn segja þrjár af minnstu eyjum eyjaklasans hafa orðið fyrir miklum skemmdum vegna flóðbylgja í kjölfar eldgossins. Skipi var siglt til eyjanna Nomuka, Mango og Fonoifua í morgun og hefur áhöfn þess sent út skilaboð um að fáar byggingar standi þar enn eftir að allt að fimmtán metra háar flóðbylgjur skullu á eyjunum.
Í viðtali við AP fréttaveituna sagði Katie Greenwood, frá Rauða krossinum, að skemmdirnar á eyjunum séu gífurlegar. Nánast allar byggingar eyjanna hafi skolast á brott. Rúmlega hundrað þúsund manns búa í eyjaklasanum.
Minnst þrír eru látnir eftir eldgosið en óttast er að þeir séu í raun fleiri.
The violent eruption a few hours ago of the Hunga Tonga-Hunga Ha apai volcano captured by satellites GOES-West and Himawari-8. pic.twitter.com/PzV5v9apF6
— Wonder of Science (@wonderofscience) January 15, 2022
Símasambandi náð aftur
Mestallt samband við eyjarnar slitnaði við eldgosið. Símasamband er að komast á aftur en sæstrengur sem hefur veitt íbúum Tonga tengingu við umheiminn gegnum internetið skemmdist og er talið að það muni taka minnst mánuð að laga hann.
Það gæti, samkvæmt viðtali Reuters við einn forsvarsmanna Tonga Cable Ltd., tekið meiri tíma þar sem langar siglingar eru fram undan hjá áhöfn viðgerðarskipsins og þar að auki sé mikil óvissa varðandi hvar strengurinn sé skemmdur og hvort óhætt verði fyrir áhöfnina að vera á svæðinu.
Aska liggur yfir eyjunum öllum og hafa íbúar takmarkaðan aðgang að drykkjarvatni. Þar sem vatnsból eyjanna eru bæði menguð af ösku og sjó. Vísindamenn hafa varað við því að askan geti mögulega haft slæm áhrif á umhverfi eyjanna, vatn, dýralíf og fæðukeðju til langs tíma.
Tvö skip frá Nýja Sjálandi eru á leið til Tonga-eyja með birgðir af vatni og eiga þau að ná til eyjanna á föstudaginn.