Mótmæli „frelsisbílalestarinnar“ svokölluðu beindust upprunalega gegn bólusetningarskyldu á landamærum Bandaríkjanna og Kanada en snerust seinna í mótmæli gegn ríkisstjórn Justin Trudeau, forsætisráðherra.
Samgöngur í Ottawa hafa verið lamaðar í þrjár vikur og hafa mótmælendur valdið mikilli reiði meðal borgarbúa með hávaða frá flautum og vegna umferðaröngþveitis. Mótmælendur lokuðu einnig landamærum Kanada og Bandaríkjanna áður en neyðarástandi var lýst yfir.
Lögregluþjónar voru fengnir víðs vegar að frá Kanada til að aðstoða lögregluna í Ottawa við að binda enda á mótmælin en minnst 191 mótmælandi hefur verið handtekinn og lögreglan hefur lagt hald á 57 bíla, þar á meðal vörubíla.
ARRESTS / ARRESTATIONS: 191
— Ottawa Police (@OttawaPolice) February 20, 2022
VEHICLES TOWED / VEHICULES REMORQUÉS: 57
STREETS CLEARED / RUES DÉGAGÉES: As of this morning, Kent Street and Bay Street are mostly clear of vehicles.#ottnews #ottnouvelles #Ottawa pic.twitter.com/yMkT01ficy
CBC News hefur eftir Watson að borgaryfirvöld geti selt bílana sem lögregluþjónar lögðu hald á. Það gæti verið gert á grundvelli neyðarástandslaganna.
„Ég vil ekki skila þeim til þessa fólks sem hefur valdið svo mikilli gremju og kvíða í samfélaginu okkar,“ sagði Watson í gærkvöldi. Þannig sagðist hann geta borgað einhvern af hinum mikla kostnaði sem mótmælin hefðu valdið.
Watson sagði einnig í dag að hann hefði verið stoltur af þeirri fagmennsku sem lögregluþjónar hefðu sýnt en lögreglan hefur verið sökuð um harðræði gegn mótmælendum við handtökur. Því hefur meðal annars verið haldið fram að kona hafi dáið eftir að lögregluþjónar á hestum tröðkuðu yfir hana.
Það er ekki rétt og lögreglan segir að myndband sem hefur verið notað til að dreifa þessum orðrómi sýni ekki almennilega hvað gerðist. Engan hafi sakað og að hjóli hafi skömmu síðar verið kastað í einn hestanna.
We hear your concern for people on the ground after the horses dispersed a crowd. Anyone who fell got up and walked away. We're unaware of any injuries. A bicycle was thrown at the horse further down the line and caused the horse to trip. The horse was uninjured. pic.twitter.com/tgfsl6uxT7
— Ottawa Police (@OttawaPolice) February 19, 2022
Borgarstjórinn sagði einhverja mótmælendur hafa hagað sér með mjög óábyrgum hætti og ögrað lögregluþjónum.
Þá sagði Watson að hann vildi að rannsakað yrði hvernig mótmælin hefðu farið úr böndunum og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að slíkt gerðist aftur.
„Þú getur ekki lengur komið til Ottawa og lokað borginni okkar í fjórar vikur,“ sagði Watson.
Hér að neðan má sjá myndefni AP fréttaveitunnar frá Ottawa í gær.
Sérfræðingur sem AP fréttaveitan ræddi við segir mótmælin hafa komið niður á báðum stærstu stjórnmálaflokkum Kanada. Frjálslyndi flokkur Trudeaus líti illa út fyrir að hafa leyft mótmælunum að valda usla á götum höfuðborgarinnar svo lengi og Íhaldsflokkurinn líti illa út því meðlimir hans hafi verið að taka upp málstað mótmælenda.
Kannanir hafa sýnt að mikill meirihluti Kanadabúa var hlynntur því að lýsa yfir neyðarástandi og stöðva mótmælin.