Uppsveifla er í faraldrinum hjá ríkjum sem áður höfðu náð að forðast veiruna líkt og afskekktum Kyrrahafseyjum. Þá fer dauðsföllum nú fjölgandi í Hong Kong og þar ætla stjórnvöld að prófa alla landsmenn fyrir veirunni þrisvar sinnum í þessum mánuði til að reyna að ná tökum á ástandinu.
Dánartalan er einnig enn há í löndum á borð við Pólland, Ungverjaland og Rúmeníu að því er AP fréttastofan greinir frá. Þau lönd takast nú einnig á við mikinn straum flóttamanna frá Úkraínu en þar í landi eru tiltölulega fáir bólusettir og þar var faraldurinn í uppsveiflu áður en Rússar hófu innrás sína.
Og dauðsföll eru enn mörg í Bandaríkjunum, þrátt fyrir hátt bólusetningarhlutfall og nú nálgast Bandaríkjamenn þann áfanga að ein milljón hafi látið lífið af völdum Covid-19.