Charlotta Englund er fædd og uppalin í Svíþjóð en flutti til Íslands sem unglingur fyrir um tuttugu árum þegar móðir hennar hóf sambúð með bónda í sveitinni.
„Svo endaði ég bara hér. Fór aðeins fram og til baka milli landa,“ segir Charlotta, en hún og eiginmaður hennar, Keldhverfingurinn Tryggvi Hrafn Sigurðsson, búa í nýlegu íbúðarhúsi á nýbýlinu Birkifelli úr landi Sandfellshaga.

Charlotta Englund starfar núna sem atvinnumálafulltrúi Norðurþings og fór fyrir verkefninu Öxarfjörður í sókn. Við spyrjum hvort hún sé orðin meiri Íslendingur en Svíi:
„Ætli það ekki, fyrst ég er ekki farin. Ég fer héðan allavega ekki með góðu, held ég.“
-Það er sagt: Glöggt er gests augað. Við Íslendingar sjáum kannski ekki allt sem útlendingar sjá hérna, kostina hérna?
„Nei, ég er ekki viss um það. Við höfum auðvitað ákveðið frelsi hérna og umhverfið er stórbrotið. Það er frábært að búa í svona umhverfi,“ svarar Charlotta en héraðið státar af náttúruperlum eins og Ásbyrgi, Jökulsárgljúfrum og Dettifossi og Melrakkasléttu í norðri.

Á jörðinni Gilsbakka býr hin sænska Ann-Charlotte Fernholm ásamt eiginmanni sínum, Hafsteini Hjálmarssyni, og tveimur börnum en hann á auk þess tvö börn úr fyrra sambandi. Hafsteinn er einnig aðfluttur, kom í sveitina úr Kópavogi.
„Ég var bara hérna sem túristi á ferðalagi. Kom svo árið eftir að vinna. Þá kynntumst við,“ segir Ann-Charlotte.
-Hvað sástu við sveitina?
„Það voru aðallegar hestar. Ég er hestakona. Svo náttúrlega fallegt fólk,“ segir hún og blikkar til mannsins síns.

„Þetta er bara mjög þægilegt samfélag. Og við viljum hvergi annars staðar vera,“ segir Hafsteinn en þau reka sauðfjárbú á Gilsbakka og heimakjötvinnsluna Sparifé.
„Þetta er bara paradís. Náttúran, miðnætursólin, norðurljósin á veturna, þetta er bara æðislegt,“ segir Ann Charlotte um lífið í Öxarfirði.
Þessi fyrri þáttur af tveimur fjallar einkum um Kelduhverfi og gamla Öxarfjarðarhrepp en í þeim síðari verður Kópasker heimsótt.
Þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld, mánudagskvöld, klukkan 19:10, en einnig má sjá hann á Stöð 2+. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: