Hópnum hefur verið falið að meta kosti og galla slíkrar íslenskrar rafkrónu.
Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri segir þróunina í heiminum vera í þessa átt:
„Meirihluti Seðlabanka ríkja í heiminum er að skoða þetta og flestir eru bara á sama stað og við að velta upp spurningunni hvort að útgáfa Seðlabankarafeyris sé nauðsynleg og leysi einhver vandamál sem eru þá innan landanna,“ segir Rannveig.
Fæstir nota seðla í dag
Hún nefnir dæmi um kosti slíkrar myntar:
„Það er náttúrulega bæði mikil nýsköpun og tæknibreytingar í gangi sem er svona önnur hliðin á þessu. Hin hliðin er náttúrulega minnkandi seðlanotkun,“ segir Rannveig. Í dag nota ekki nema um fimm til tíu prósent landsmanna reiðufé reglulega.

Seðlabankanum er falið að standa vörð um virka og örugga greiðslumiðlun og slík rafmynt gæti einnig bætt greiðslumiðlun milli landa.
Regluverk í kring um slíka mynt yrði þó væntanlega ansi mikið svo fólk færi ekki megnið af fé sínu úr almennum viðskiptabönkum og í Seðlabankann. Rannveig segir Seðlabankann alls ekki vilja veikja viðskiptabankana. Það myndi ekki gagnast neinum.
Gæti orðið hröð þróun
Enn er nokkuð í að slík mynt líti dagsins ljós - það er að segja ef bankinn metur það æskilegt yfir höfuð.
„Þetta er eitthvað sem að gerist líklega ekki alveg á næstunni en ég hef nú yfirleitt haldið því svoldið til haga að hlutir geta líka gerst mjög hratt því það hafa verið tilraunir erlendis bæði með tæknina og prófanir og annað,“ segir Rannveig.
Nú fer hópurinn vandlega yfir málið áður en samtal um íslenska rafkrónu fer fram við almenning.
„Í kjölfarið myndum við þá taka upp samtalið við haghafa eins og aðila á fjármálamarkaði, við almenning og kjörna fulltrúa og stjórnvöld,“ segir Rannveig.