Margir kynnast yfirmanninum sínum nokkuð vel og oft myndast góður vinskapur á milli.
Þó eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga í samskiptum við yfirmann. Hvort sem þau fara fram auglitis til auglitis, í síma eða í tölvupósti.
Hér eru nokkur atriði sem ber að forðast.
Að vera neikvæð/ur í tali, óháð því hvert umræðuefnið er
Að kjafta um samstarfsfélaga þína
Að tala í hugsunarleysi eða af hvatvísi, í pirring og svo framvegis
Að taka því of persónulega ef yfirmaðurinn er að reyna að leiðbeina þér til góðs með gagnrýnni endurgjöf
Að sniðganga yfirmanninn þinn með því að tala beint við yfirboðara hans/hennar
Að hóta eða gefa í skyn að þú hættir EF eitthvað sem þú vilt nær ekki fram að ganga
Að neita verkefnum eða sinna þeim ekki, án rökstuðnings
Að vera of sjálfhverf/ur í tali, láta egóið skína í gegn (monta þig)
Að vera með minnimáttakennd því yfirmaðurinn er hærra sett/ur en þú
Í samskiptum gildir það almennt að það sem við segjum eða hvernig við hegðum okkur og komum fram við fólk, segir fyrst og fremst allt um okkur en ekkert um annað fólk.
Að vanda sig í samskiptum við stjórnendur snýst því ekkert um boð og bönn, heldur eingöngu það að skemma ekki fyrir okkur sjálfum. Því hlutverk stjórnandans er alltaf að meta starfsfólk með tilliti til liðsheildar og árangurs.