Í ræðu sem Tedros Adhanom Ghebreyesus hélt á 75. Alþjóðaheilbrigðisþinginu í Genf í Sviss í gærkvöldi nefndi hann sérstaklega kórónuveiruna, stríðið í Úkraínu og apabóluna, sem virðist nú vera að breiðast út á miklum hraða.
Sjúkdómurinn, sem hingað til hefur verið staðbundinn í Afríku, hefur á síðustu dögum fundist í fimmtán löndum víðsvegar um heiminn. Rúmlega áttatíu tilfelli hafa verið staðfest í Evrópu, Bandaríkunum, Kanada og í Ástralíu.
Sérfræðingar benda þó á að almenningi stafi ekki mikil hætta af apabólunni, þar sem hún smitast ekki mjög greiðlega, en þeir sem smitast eru víða látnir sæta þriggja vikna sóttkví.
Búist er við því að fleiri ný tilfelli verði staðfest í dag í Evrópulöndunum eftir helgina, að því er segir í frétt BBC.