„Hann er búinn að vera sturlaður allt tímabilið og er gjörsamlega búinn að stimpla sig inn sem einn af betri leikmönnum heims. Hann er frábær,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson um Ómar, liðsfélaga sinn hjá Magdeburg.
Þó að Gísli hafi skorað 78 mörk í þýsku 1. deildinni í vetur þá hefur Ómar gert enn betur og er markahæstur í allri deildinni með 218 mörk en þar af eru 105 úr vítum.
Í baráttu við „tvo“ Íslendinga
Ómar er sem stendur markahæstur en aðeins einu marki á undan Hans Lindberg úr Füchse Berlín sem á þrjá leiki eftir á meðan að Ómar á tvo leiki eftir.
Lindberg er Dani en á reyndar íslenska foreldra og þriðji maðurinn í baráttunni um markakóngstitilinn er svo Bjarki Már Elísson sem kominn er með 210 mörk á kveðjutímabili sínu hjá Lemgo.
Nú þegar Magdeburg hefur þegar tryggt sér þýska meistaratitilinn ætla þá Gísli og aðrir liðsfélagar að hjálpa Ómari að tryggja sér markakóngstitilinn?
„Jú, við viljum auðvitað hjálpa honum. Við gerum okkar til að hann taki markakóngstitilinn. Hann mun vonandi bæta honum við líka,“ segir Gísli.
Magdeburg mætir Leipzig á útivelli á fimmtudaginn og tekur svo á móti Rhein-Neckar Löwen næsta sunnudag í lokaumferðinni í Þýskalandi.