Kaflinn er 3,8 kílómetra langur og liggur um svokallaðan Pennusneiðing og vonast Einar Örn Arnarson, sviðsstjóri klæðningar hjá Borgarverki, til að verkið klárist á morgun. Umferð er á meðan hleypt um gamla veginn sem liggur neðar í hlíðinni.
Vegafarendur gætu þó eitthvað lengur þurft að aka um gamla veginn. Til skoðunar er að leggja efra lag klæðningar á kaflann um leið og fyrra lagið er búið að jafna sig og gæti farið svo að beðið verði með að hleypa umferð á nýja veginn á meðan.
Þá þurfa vegfarendur enn um sinn að bíða eftir slitlagi á 4,4 kílómetra kafla ofan Pennusneiðings, sem liggur milli Þverdals og Norðdalsár og inn á Bíldudalsveg. Þar er undirbyggingu vegarins fyrir slitlag ekki lokið en Einar Örn vonast til að unnt verði að klæða hann í kringum mánaðamót júlí og ágúst.

Vegagerðin er hluti fyrsta áfanga endurbyggingar Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði, sem Íslenskir aðalverktakar annast, en 4,3 kílómetra kafli í botni Arnarfjarðar, milli Mjólkár og Dynjanda, er einnig liður í verkinu. Þar var fyrri umferð slitlags lögð á síðastliðið haust. Stefnt er að því að seinni umferðin verði lögð á þann kafla í beinu framhaldi af Pennusneiðingi, að sögn Einars. Hann tekur þó fram að það ráðist af veðri.
Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í byrjun mánaðarins að Vegagerðin er búin að auglýsa næsta útboð á Dynjandiheiði, 12,6 kílómetra kafla sem liggur um hæstu hluta heiðarinnar. Sá kafli nær frá Norðdalsá, um efstu hlíðar Geirþjófsfjarðar og norður fyrir sýslumörk. Tilboðsfrestur er til 5. júlí næstkomandi. Framkvæmdatími er áætlaður tvö ár og gert ráð fyrir verklokum 15. júlí 2024.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um það útboð: