Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Söru Sigmundsdóttur tókst hvorugri að tryggja sér eitt af fimm sætunum í boði í sínum undankeppnum en voru nógu ofarlega til að tryggja sér þátttökurétt í Last-Chance Qualifier.
Þar fá að keppa þær íþróttakonur og þeir íþróttamenn sem voru næst því að fá farseðilinn í undanúrslitunum.
Alls eru þrjátíu konur og þrjátíu karlar sem keppa um tvö laus sæti hjá hvoru kyni. Last-Chance Qualifier fer fram frá 29. júní til 1. júlí næstkomandi. Keppnin fer fram í gegnum netið en keppendur þurfa vitanlega að fylgja ströngum reglum eins og þeir ættu að vera vanir eftir öll netmótinu undir kórónuveiruástandinu.
Sara varð í sjötta sæti á CrossFit Lowlands Throwdown mótinu í Hollandi en allar fimm sem urðu á undan henni tryggðu sig inn á heimsleikana.
Katrín Tanja varð í sjötta sæti á Strength in Depth mótinu í London og vantaði í raun aðeins sex stig til að ná einu af fimm efstu sætunum.
Ísland á þegar þrjá keppendur á heimsleikunum í einstaklingskeppninni því þau Björgvin Karl Guðmundsson, Þuríður Erla Helgadóttir og Sólveig Sigurðardóttir tókst öllum að ná lausu sæti í undanúrslitamótunum. Lið CrossFit Reykjavíkur undir forystu Annie Mist Þórisdóttur eru einnig komin á heimsleikana eftir frábæra frammistöðu í undanúrslitunum.
Þuríður Erla náði þriðja sætinu á Strength in Depth mótinu og Sólveig varð þar í fjórða sæti. Þuríður Erla er að fara á sína sjöundu leika í einstaklingskeppninni en þetta er í fyrsta sinn sem Sólveig keppir meðal þeirra bestu.
Björgvin Karl varð í öðru sæti á Lowlands mótinu í Amsterdam og er því kominn á sína níundu heimsleika í röð sem er frábær árangur.
Ísland mun einnig eiga fulltrúa meðal yngri keppenda því Rökkvi Hrafn Guðnason komst í úrslit í flokki sextán til sautján ára stráka og Bergrós Björnsdóttir komst í úrslitin í flokki fjórtán til fimmtán ára stelpna.