Björn Bjarki hefur starfað sem framkvæmdastjóri Brákarhlíðar, hjúkrunar- og dvalarheimilis í Borgarnesi, síðastliðin fimmtán ár og setið í stjórn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu síðastliðin tíu ár, lengst af sem varaformaður og síðar formaður þar til í apríl síðastliðnum.
Björn Bjarki hefur áralanga reynslu af sveitarstjórnarstörfum en hann sat í sveitarstjórn Borgarbyggðar frá 2002 til 2018, þar af sem forseti sveitarstjórnar í tvö kjörtímabil. Einnig hefur hann gegnt formennsku meðal annars í byggðarráði og fræðslunefnd.
Samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar Dalabyggðar verður Björn Bjarki með 1,675 milljón króna í mánaðarlaun og ökutækjastyrk upp á 127 þúsund krónur. Þá fær hann farsíma til afnota og mun sveitarfélagið borga símreikning, internet-tengingu og iðgjöld af veikinda-, slysa- og líftryggingu.
Björn Bjarki mun leigja íbúð af Dalabyggð og greiðir fyrir hana samkvæmt gjaldskrá um leiguíbúðir sveitarfélagsins. Reiknað er með að hann hefji störf undir lok sumars.
Samkvæmt tölum á vef Hagstofu eru íbúar sveitarfélagsins 665 talsins en þeim fjölgaði verulega seinasta ár, eða um 45 talsins.
Umsóknarfrestur um starf sveitarstjóra rann út 20. júní síðastliðinn. Alls bárust 13 umsóknir og tveir umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Að lokinni úrvinnslu umsókna var það mat byggðaráðs að hafna skyldi öllum umsóknum. Umsækjendur voru:
- Ari Jóhann Sigurðsson, sérkennari
- Barbara K. Kristjánsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri
- Glúmur Baldvinsson, eigin rekstur
- Gunnsteinn Björnsson, sjálfstætt starfandi
- Hróðmar Dofri Hermannsson, framkvæmdastjóri
- Ingvi Már Guðnason, verkstjóri
- Jón Eggert Guðmundsson, yfirmaður kerfismála
- Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri
- Sigurður Sigurðarson, sjálfstætt starfandi
- Viggó E. Viðarsson, flokksstjóri
- Örn Haukur Magnússon, framkvæmdastjóri
Uppfært: Upphaflega stóð að ökutækjastyrkurinn væri 217 þúsund krónur á mánuði en er í rauninni 127 þúsund.