Skorið var niður eftir þrjá hringi en Ragnhildur lék sinn þriðja hring í nótt. Hún fór hringinn á fjórum höggum yfir pari, líkt og annan hringinn nóttina á undan.
Hún lauk keppni á átta höggum yfir pari eftir að hafa farið fyrsta hringinn á pari. Hún var því sex höggum frá niðurskurðarlínunni sem markaðist við tvö högg yfir pari.
Hún átti fína spretti um helgina og segir í samtali við Kylfing.is að hún telji sig eiga heima á þessu sviði og að þetta fari í reynslubankann.
„Þó að ég sé ekki sátt með spilamennskuna sjálfa, tek ég margt frá þessari viku hérna í Kaliforníu. Mér finnst ég klárlega eiga heima á þessu sviði og veit ég að þessi reynsla mun bara hjálpa mér við það að komast á þann stað sem ég vil komast á,“ er haft eftir Ragnhildi á Kylfingur.is.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er eini íslenski kylfingurinn sem hefur hlotið keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni, sem er sú sterkasta í heimi.