Martin Hermannsson sleit krossband í hné í vor og mun því ekki spila meiri körfubolta á þessu ári.
Craig Pedersen landsliðsþjálfari sagði svo frá því á RÚV í dag að Jón Axel Guðmundsson yrði ekki með á Spáni í kvöld vegna minni háttar bakmeiðsla, en að vonandi yrði hann með gegn Úkraínu í Ólafssal á laugardaginn. Þar með ætti Ragnar Ágúst Nathanaelsson að koma inn í íslenska hópinn.
Þrír úr NBA-deildinni
Ljóst er að nær óvinnandi verk bíður Íslands í kvöld, í leik sem hefst klukkan 19 að íslenskum tíma. Í æfingahópi Spánverja fyrir leikinn eru meðal annars þrír leikmenn úr NBA-deildinni; bræðurnir Juancho og Willy Hernangómez, sem spila með Toronto Raptors og New Orleans Pelicans, og Usman Garuba úr Houston Rockets.
Fleiri frábærir leikmenn eru í liðinu eins og leikstjórnandinn Lorenzo Brown sem fékk spænskan ríkisborgararétt þrátt fyrir að hafa aldrei búið á Spáni eða eiga nokkur tengsl við landið.
Möguleiki á að komast á HM í fyrsta sinn
Ísland er nú að hefja leik á seinna stigi undankeppni HM. Ljóst er að Ísland á möguleika á að komast á HM í fyrsta sinn í sögunni en ætla má að það velti á úrslitum í öðrum leikjum en útileik gegn heimsmeisturunum.
Ísland var upprunalega í H-riðli með Rússlandi, Ítalíu og Hollandi og komst áfram í aðra umferð líkt og Ítalía og Holland, en Rússland var dæmt úr leik vegna stríðsins í Úkraínu. Ísland vann tvo leiki gegn Hollandi og einn gegn Ítalíu og tekur með sér stigin sín.
Liðin sem sameinast Íslandi, Ítalíu og Hollandi í nýjum sex liða riðli eru Spánn, Georgía og Úkraína. Þrjú efstu þessara liða eftir aðra umferð, þar sem liðin leika gegn hinum nýju liðum heima og að heiman, leika á HM næsta sumar.

Alls verða það 12 evrópsk lið sem leika á HM sem fram fer í Japan, Indónesíu og á Filipseyjum.