Margir hafa beðið lengi í ofvæni eftir nýju hlaðvarpi Meghan Markle. Í hlaðvarpinu tekur Markle viðtöl við hina ýmsu kvenskörunga þar sem markmiðið er að rýna í og fjalla um hluti sem haldi aftur af konum.
Eins og áður segir var fyrsti þátturinn gefinn út á þriðjudag en í honum tók hertogaynjan viðtal við tennisgoðsögnina Serenu Williams, sem tilkynnti það nýlega að hún ætli að leggja skóna á hilluna.
Þessi fyrsti þáttur fékk fleiri spilanir en hlaðvarp Joe Rogans, The Joe Rogan Experience, sem hefur trónað á toppi hlaðvarpslista Spotify í þrjú ár. Þetta er þó ekki fyrsta skiptið sem Rogan er bolað af toppnum en hann hefur náð að halda sér í toppsætinu, með einstaka hléum í þessi þrjú ár, þar á meðal í vetur þegar hann var harðlega gagnrýndur af ýmsum fyrir falsfréttaflutning um Covid og bóluefni gegn Covid.
Spotify birtir ekki hlustunartölur fyrir einstaka hlaðvarpsþætti en talið er að hlustað sé á hvern þátt Rogans allt að ellefu milljón sinnum. Rogan er á samningi við Spotify, sem er eina hlaðvarpsveitan sem gefur út þættina hans, en það hefur vakið harða gagnrýni í gegn um tíðina.
Tónlistarfólkið Joni Mitchell og Neil Young sögðu skilið við streymisveituna í vetur eftir að hún neitaði að fjarlægja hlaðvarp Rogans. Það var vegna ágreinings um falsfréttaflutning Rogans af heimsfaraldri kórónuveiru. Þá var Rogan milli tannanna á fólki í febrúar þegar gömul klippa úr hlaðvarpi hans fór á dreifingu um netið þar sem hann gerði grín að Markle og kallaði hana „litla ameríska dræsu.“
Viku eftir að hljóðbrotið fór í dreifingu fjarlægði Spotify 113 þætti af The Joe Rogan Experience en Rogan hafði í aðdraganda þess beðist afsökunar á því á Instagram að hafa notað niðrandi orðbragð um minnihlutahópa í hlaðvarpinu. Meðal þeirra ummæla sem hann baðst afsökunar á var þegar hann líkti hverfi, þar sem meirihluti íbúa er svartur, við kvikmyndina Planet of the Apes.