Rock sagði frá boði aðstandenda Óskarsverðlaunahátíðarinnar á uppistandssýningu sinni í Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum síðastliðið sunnudagskvöld. Hafði þá einn áhorfandi í salnum hvatt Rock to að segja aðeins frá atvikinu.
Rock sagðist ennfremur hafa hafnað boði um að leika í auglýsingu ónefnds fyrirtækis sem átti að sýna í útsendingu Ofurskálarinnar (e. Super Bowl) á næsta ári sem er einn stærsti sjónvarpsviðburður í Bandaríkjunum á ári hverju.
Rock sagði að það yrði eins og að snúa aftur á vettvang glæps ef hann myndi þiggja boð um að verða kynnir Óskarsverðlaunahátíðarinnar. Vísaði hann svo í réttarhöldin yfir O.J. Simpson vegna morðsins á eiginkonu hans, Nicole, og sagði hann það vera eins og ef henni yrði boðið að „snúa aftur á ítalska veitingastaðinn“. Í réttarhöldunum yfir O.J. Simpson var talsvert fjallað um að morðkvöldið hafi Nicole gleymt gleraugum á ítölskum veitingastað þar sem þau hjónin höfðu snætt.
Í sýningunni í Phoenix sagði Rock að löðrungurinn hafi verið sársaukafullur, enda hafi Smith áður farið með hlutverk hnefaleikakappans Muhammed Ali í kvikmynd. „Hann er stærri en ég. Nevada-ríki myndi ekki samþykkja bardaga milli mín og Smith,“ sagði Rock.
Smith hefur beðið Rock afsökunar á hegðun sinni, en Rock hefur þó lítið viljað bregðast við. Hann sé ekki reiðubúinn að funda með Smith. Aðstandendur Óskarsverðlaunahátíðarinnar hafa bannað Smith að sækja hátíðina næstu tíu árin vegna hegðunar hans á síðustu hátíð.