Mikið gustaði um sambandið í fyrra þegar sex íslenskir landsliðsmenn voru sakaðir um kynferðisofbeldi og viðbrögð KSÍ í þeim málum gagnrýnd. Guðni Bergsson, formaður sambandsins, sagði af sér sem og stjórn KSÍ fyrir sléttu ári síðan.
Sérstök nefnd skipuð af KSÍ fór yfir málið og ferla hjá sambandinu og lagði til þónokkrar tillögur til bóta, en líkt og vakin var athygli á í gær hefur lítið bólað á mörgum þeirra og sagði Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, sem sat í nefndinni sem KSÍ skipaði, að ekki hefði nóg verið gert í þeim málum.
Á meðal tillaga til úrbóta var að sambandið skildi vera leiðandi afl jafnréttismála í íþróttahreyfingunni og ná því fram með því að tryggja fræðslu um jafnrétti og kynferðisofbeldi bæði á meðal þjálfara, starfsfólks og sjálfboðaliða hjá fótboltafélögum sem eiga aðild að sambandinu.
Sambandið hefur stigið skref í þá átt en samkvæmt tilkynningu KSÍ er markmið samstarfsins við Barnaheill að „fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þekkja einkenni ofbeldis og læra að bregðast við,“.
KSÍ hefur opnað fyrir skráningu félaga á landinu í verkefnið og segir í tilkynningu þess að vonir séu bundnar um góða skráningu á verkefnið sem mun standa yfir næstu tvö ár. Sérfræðingur frá Barnaheillum mun heimsækja félögin sem skrá sig og sinna fræðslunni.
Leiðrétt kl. 13:15: KSÍ tilkynnti upprunalega um samstarfið í maí en birti færsluna sem um ræðir á heimasíðu sinni á ný í gær. Upprunalega sagði í fréttinni að tilkynnt hefði verið um samstarfið í gær.