Vísir greindi fyrstur miðla frá málinu síðdegis í gær og ræddi við Steinunni Árnadóttur organista í Borgarneskirkju sem lýsti áhyggjum sveitunga sinna vegna illrar meðferðar á hrossunum.
Myndband sem Steinunn tók af hryssu og folaldi úr stóðinu í hesthúsabyggðinni við Borgarnes 16. ágúst síðastliðinn má sjá í fréttinni hér fyrir neðan. Hestarnir voru settir út eftir að málið komst í fjölmiðla og fréttastofa hafði uppi á einu trippanna, sem sýnt var í beinni útsendingu og einnig má sjá í fréttinni.
Ingibjörg Gunnarsdóttir er fyrrverandi eigandi þriggja hryssa úr stóðinu, sem sýndar eru í fréttinni sem folöld þegar þær voru í eigu Ingibjargar. Og á þessari mynd innan úr hesthúsinu í Borgarfirði eru þær allar samankomnar að sögn Ingibjargar, grindhoraðar og þjáðar að sjá.

„Þetta var bara mjög mikið sjokk. Systir mín hringdi í mig í gær og var bara grátandi yfir þessu. Við leggjum metnað í að sinna okkar dýrum vel og höfum lagt metnað í að tryggja að þau fari á góða staði. Þetta var bara mikið áfall. Og ótrúlegt að þetta geti gerst að einhver hagi sér svona,“ segir Ingibjörg.
Engin svör
Kaupandi hafi lofað hryssunum góðu heimili, loforð sem greinilega hafi verið þverbrotið. Hún, og fleiri fyrrverandi eigendur, hafi haft samband við MAST og núverandi eigendur.
„Og myndum náttúrulega helst vilja taka hrossin til baka. Við höfum góða aðstöðu til að veita þeim það sem þau þurfa og höfum miklar áhyggjur af þeim í þessum aðstæðum, og í höndum þessara aðila sem virðast ekki betur í stakk búin að sinna þeim en þetta.“
En þið hafið engin svör fengið?
„Við höfum engin svör fengið, hvorki frá kaupandanum né MAST.“
Hvernig finnst þér stemningin í hestasamfélaginu út af þessu?
„Það eru allir bara gjörsamlega miður sín. Fólk trúir ekki að þetta geti gerst. Fólk er bara orðlaust,“ segir Ingibjörg.
Ekki náðist í núverandi eigendur hrossanna við vinnslu fréttarinnar.