Aðspurð um tilfinninguna eftir svo svekkjandi tap segist Sveindís eðlilega líða illa.
„Ég er bara í áfalli. Við spiluðum ógeðslega vel 90 mínútur, bara alveg eins og við ætluðum að gera, en það hefði verið gott að skora í leiknum og gera þetta erfiðara fyrir þær. Þær fá eitt ógeðslegt mark sem á að vera fyrirgjöf sem endar einhvern veginn inni,“ segir Sveindís.
Sveindís fékk kjörið tækifæri til að koma Íslandi yfir á 75. mínútu en hitti boltann illa. Aðspurð um hvað fari helst í gegnum huga hennar eftir leikinn segir hún færið vera þar efst á lista.
„Það er 100 prósent það. Ég veit ekki hvað gerðist, en svona er þetta,“
Aðspurð um stemninguna í hópnum eftir tapið segir Sveindís:
„Við ætlum auðvitað bara að taka þetta í umspilinu, það er ekkert annað í stöðunni heldur en það. Við mætum gríðarlega peppaðar í þann leik og tökum hann bara. Við ætlum á HM,“
Sveindís segir þá lítið hafa upp á sig að dvelja mikið við leikinn. HM-sætið er ekki úr sögunni og hún hefur fulla trú á því að Ísland geti tryggt sætið í komandi umspili í október.
„[Við þurfum] Bara reyna að hætta að hugsa um þetta. Við vitum að við eigum ennþá séns þannig að það er ekki hægt að dvelja of lengi við þennan leik. Við verðum bara að taka næsta leik og vinna hann og þá er þetta komið. Við ætlum á Hm og við vitum það öll. Ég held að við getum allar unnið vel úr þessu og komið peppaðar í næsta leik.“ segir Sveindís Jane.