Markvörðurinn Emannuel Augusto Evangelista er kominn til Harðar og hefur fengið leikheimild. Hann gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir Harðarmenn þegar þeir sækja ÍR-inga heim í nýliðaslag annað kvöld.
Hörður hefur einnig samið við Jhonatan Cristiano Ribeiro Dos Santos, 24 ára leikstjórnanda. Og tveir Brassar til viðbótar eru á leiðinni til Ísafjarðar; hægri hornamaður og vinstri skytta.
„Við stefnum á tvo í viðbót. Þetta er allt á lokametrunum. Það er kominn samningur en ég trúi þessu aldrei fyrr en ég er búinn að bóka flugmiðann,“ sagði Vigdís Pála Halldórsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Harðar, í samtali við Vísi í dag.
„Við vonumst til að þeir verði allir komnir um helgina. En svo veit maður aldrei. Það tekur tíma að fá atvinnuleyfi frá Útlendingastofnun.“
Hörður sækir ÍBV heim á sunnudaginn í frestuðum leik frá 1. umferð. Laugardaginn 8. október taka Harðarmenn svo á móti Selfyssingum.
Hörður hefur tapað báðum leikjum sínum í Olís-deildinni á tímabilinu, fyrir Val og KA.