Leik dagsins lauk með markalausu jafntefli og því ljóst að Valur er úr leik þar sem Slavia Prag vann fyrri leik liðanna á Hlíðarenda með einu marki gegn engu. Pétur ræddi við Fótbolti.net að leik loknum og lét þar óánægju sína í garð Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, og KSÍ í ljós.
„Mér finnst í lagi að Knattspyrnusambandið reyni að hjálpa svo það sé hægt [að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar]. Slavia fær vikufrí til að spila þennan leik, áttu að spila á sunnudag en leiknum var frestað,“ sagði þjálfari Valsliðsins frekar ósáttur með álagið sem hefur verið á hans liði.
Þann 17. september fór Valur til Vestmannaeyja og spilaði við ÍBV. Miðvikudeginum eftir það mættust Valur og Slavia Prag að Hlíðarenda. Síðasta laugardag fóru Valskonur í Mosfellsbæ og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn. Í dag spilaði liðið í Tékklandi og mætir svo Selfossi á heimavelli á laugardaginn kemur.
„Mér finnst að það ætti að hjálpa okkur aðeins meira. Við náum ekki einu sinni æfingu fyrir leik á móti Selfossi,“ bætti Pétur við.
Pétur hrósaði þó sínu liði og sagði það heilt yfir hafa verið betri aðilinn í einvíginu. Honum fannst lið sitt virka smá þreytt á köflum en sagði það hafa reynt og reynt. Að endingu fór Pétur yfir vallaraðstæður í Tékklandi.
„Það stendur Respect [í. virðing] á fána hérna sem er merktum UEFA. Ef þetta er virðing, að spila á svona velli í úrslitaleik um að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, þá er eitthvað mikið að hjá UEFA. Þetta er lélegt gras og það er fáránlegt að við séum ekki að spila á alvöru velli. Á næsta ári stefnum við á að komast í riðlakeppnina,“ sagði Pétur Pétursson að endingu í viðtali sínu við Fótbolti.net.