Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en heimamenn í Skjern höfðu þó alltaf frumkvæðið og leiddu með tveimur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja, 13-11.
Sveinn og félagar náðu svo mest sex marka forystu í síðari hálfleik og sigur þeirra var í raun aldrei í hættu eftir það. Skjern vann að lokum góðan tveggja marka sigur, 30-28, og lyfti sér um leið upp fyrir Ribe-Esbjerg í fjórða sæti deildarinnar.
Sveinn komst ekki á blað fyrir Skjern í kvöld, en Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí Björgvinsson varði níu skot í marki gestanna, en Arnar Birkir Hálfdánarson kom lítið við sögu.