Aron Pálmarsson var á sínum stað í liði Álaborgar er liðið heimsótti Pick Szeged til Ungverjalands. Aron hafði þó heldur hægt um sig í sóknarleik gestanna og skoraði aðeins eitt mark úr tveimur skotum, en það voru þeir Sebastian Barthold og Mikkel Hansen sem fóru fyrir sóknarleiknum og skoruðu tíu mörk hvor.
Álaborg vann að lokum afar öruggan 12 marka sigur, 29-41, og er liðið nú með sex stig í öðru til þriðja sæti B-riðils eftir fjóra leiki.
Þá vann Íslendingalið Magdeburg öruggan sex marka sigur gegn pólska liðinu Wisla Plock á sama tíma. Lokatölur 33-27 eftir að heimamenn í Magdeburg leiddu með einu marki í hálfleik, 17-16.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæsti maður vallarins ásamt liðsfélaga sínum, Kay Smits, og mótherja sínum, Lovro Mihic, en allir skoruðu þeir átta mörk. Ómar Ingi Magnússon komst hins vegar ekki á blað fyrir Magdeburg.
Að lokum máttu Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í norska liðinu Elverum þola 16 marka tap er liðið tók á móti Barcelona, 30-46.