Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig þann 5. október síðastliðinn og síðan þá hafa allir stóru bankarnir þrír ákveðið að hækka sína vexti.
Íslandsbanki gerði það síðastur bankanna og tilkynnti í dag að vaxtabreytingar muni taka gildi á mánudag. Vextir Landsbankans hækkuðu frá og með síðasta miðvikudegi og vextir Arion banka frá og með deginum í dag.
Í tilkynningu Íslandsbanka segir að vextir á óverðtryggðum innlánsreikningum hækki um allt að 0,25 prósentustig. Almennir veltureikningar haldist óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána hækki um 0,1 prósentustig, breytilegir óverðtryggðir kjörvextir um 0,25 prósentustig, breytilegir óverðtryggðir kjörvextir Ergo og vextir bílalána og bílasamninga hækk um 0,25 prósentustig og yfirdráttarvextir einstaklinga og fyrirtækja hækka um 0,25 prósentustig.
Breytingar á lánum sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taki þó gildi í samræmi við skilmála þeirra og tilkynningar þar að lútandi.