Bolsonaro og Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti, etja kappi um forsetastólinn í annarri umferð forsetakosninganna í Brasilíu um helgina. Lula hefur notið um fimm prósentustiga forskots á Bolsonaro í skoðanakönnunum en nú virðist sem að munurinn hafi mjókkað, sérstaklega á meðal fátækra sem hafa til þessa verið kjarnafylgi Lula.
Útgjöld til velferðargreiðslna fyrir fátækustu íbúanna hafa aukist um helming. Um hálf milljón manna til viðbótar fær nú mánaðarlegar greiðslur frá alríkisstjórninni, umsóknarfrestur um þær hefur verið lengdur og í sumum tilfellum hefur greiðslunum verið flýtt. Alls ætlar ríkisstjórnin að auka útgjöldin um 52 milljarða dollara, jafnvirði um 7.500 milljarða íslenskra króna á þessu ári og því næsta.
Fylgi Bolsonaro á meðal þeirra sem þiggja velferðargreiðslurnar jókst úr 33% í 40% á milli vikna í síðustu viku. Í september þegar forsetaframbjóðendurnir voru fleiri mældist Bolsonaro með 26% fylgi í þessum hópi kjósenda.
Eloisa Machado, lögfræðiprófessor við hugveituna FGV í Sao Paulo segir Reuters-fréttastofunni að útgjaldaaukningin til velferðarmála í kosningabaráttunni sé fordæmalaust brot á kosningalögum.
„Það eru fjölmörg merki um að forsetinn víki frá tilgangi félagslegrar og efnahagslegrar stefnu til þess að bæta eigin líkur á kjöri,“ segir hún.
Saksóknarar sem framfylgja kosningalögum hafa ekki brugðist við áskorunum um að rannsaka hvort að fjárútlátin samræmist lögum. Luka hefur heldur ekki reynt að fá yfirkjörstjórn landsins til þess að skarast í leikinn. Ráðgjafar hans segja að hann bíði með það til þess að gefa Bolsonaro ekki skotfæri á sér gagnvart fátækum kjósendum.