Um sannkallaða byltingu er að ræða varðandi keppni evrópskra kvennalandsliða í fótbolta sem hingað til hafa leikið í undankeppnum Evrópumóta og heimsmeistaramóta, í riðlum með liðum úr mismunandi styrkleikaflokkum.
Þessar undankeppnir hafa nú verið aflagðar og mun hin nýja Þjóðadeild skera úr um það hvaða lið komast á EM og HM, sem og það hvaða lið komast á Ólympíuleikana en hingað til hefur árangur á HM ráðið sætum Evrópuliða á Ólympíuleikum.

Í fyrstu útgáfu Þjóðadeildarinnar, sem hefst næsta haust og lýkur vorið 2024, verður ekki leikið um sæti á EM eða HM. Tvö efstu liðin í keppninni komast á Ólympíuleikana í París (og liðið í 3. sæti ef að Frakkland endar í fyrsta eða öðru sæti).
Ísland verður eitt af sextán liðum í A-deildinni, sextán lið verða í B-deildinni og restin (líklega 19 lið) í C-deildinni.
Í A-deildinni verður leikið í fjórum fjögurra liða riðlum. Efsta liðið í hverjum riðli kemst áfram í úrslitin þar sem leikið verður um Þjóðadeildarmeistaratitilinn (og sæti á ÓL).
Liðin sem enda í 2. sæti síns riðils í A-deild halda sæti í deildinni, liðin sem enda í 4. sæti falla í B-deildina en liðin í 3. sæti fara í umspil við lið úr 2. sæti í B-deild.
Mikilvægt fyrir Ísland að halda sér uppi
Það er nokkuð mikilvægt fyrir Ísland að standa sig vel í A-deildinni og forðast að minnsta kosti fall úr B-deild. Í annarri útgáfu Þjóðadeildarinnar, sem leikin verður frá vori til hausts 2024, verður nefnilega spilað um sæti í lokakeppni EM 2025.
Liðin átta sem enda í 1. og 2. sæti síns riðils í A-deildinni í þeirri keppni komast beint á EM. Liðin sem enda í 3. og 4. sæti síns riðils í A-deild fara í umspil og leika þar í fyrstu umferð gegn liðum sem enda í 1. og 2. sæti í C-deild. Í seinni umferð umspilsins leika sigurliðin svo við sigurlið úr einvígum liða úr B-deildinni.
Alls komast því átta lið beint á EM með stöðu sinni í A-deild og sjö lið í gegnum umspil, auk gestgjafa.
Þjóðadeildin ræður einnig sætum á HM
Sams konar fyrirkomulag verður svo fyrir HM 2027 en þá verða þó færri sæti í boði en á EM. Fyrir HM 2023 átti Evrópa 11 örugg sæti og möguleika á einu sæti í gegnum alþjóðlegt umspil. Ísland var grátlega nálægt því að komast á það HM en tapaði 1-0 gegn Hollandi í lokaumferð undankeppninnar í haust og svo gegn Portúgal í framlengdum leik í umspili.