Þá er hinn fallegi friðarspúandi Alheimur að gefa þér sterka sýn um það hvernig þú getir unnið með skipulagshæfni þína gagnvart öðrum og hjá sjálfri þér. Þú kemur til með að njóta hlutanna á einfaldari hátt, það er eins og þú sért að reikna út hvað er þess virði að hlaupa eftir og líka að sjá hvert virði þitt er. Það verður mikið um faðmlög og það eflast tengingar innan fjölskyldu; annaðhvort hefur eitthvað gerst til þess að þetta komi til, eða er yfirvofandi.
Það er eins og sólin og tunglið haldist í hendur, svo að bæði hið erfiða og hið góða verður fallegt í þínum huga því að þú finnur að þú getur þakkað fyrir svo margt sem þú hélst einhvern tímann að myndi ganga frá þér. Svo það þarf að vera aldeilis mikið og stórt verkefni sem mun hrinda þér niður. Ástin gefur þér tilefni til þess að endurskoða hvernig þú vilt hafa hana, svo þú skalt vera með það á hreinu hvernig þú vilt hafa ástina án þess að breyta öðrum, því það er ekki hægt.
Ef þú hefur verið í löngu sambandi og finnst að öll ljós séu slökkt, þá skaltu muna að ef ljósin voru einhvern tímann kveikt og tilfinningar til þá geturðu náð í þá líðan aftur. Vegna þess að ekkert eyðist sem einhvern tímann hefur verið sett út í Veröldina. Ef þú spyrð þig hvað er ást, þá skynjar enginn það eins, en að setja einhverja aðra sál í forgang fram yfir þig, það mín skilgreining á ást.
Það er mikil frjósemi hjá þér, bæði í sambandi við viðskipti, að stofna eitthvað sem er þitt eigið, eða að fara að koma barni í heiminn, svo öflugur er þinn kjarni.
Knús og kossar, Sigga Kling