Hlutafjáraukningin fer fram á genginu 14,6 að því segir í tilkynningu sem send var til kauphallarinnar skömmu fyrir miðnætti í gær. Gengi hlutabréfa félagsins á markaði stóð í 15,2 í gær.
Hlutafjáraukningin gerir það að verkum að hlutafé félagsins hækkar úr kr. 703.333.331 í kr. 860.867.578.
Félagið kynnti í gær afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi ársins, sem og fyrstu níu mánuðum ársins.
Þar kom fram að rekstrarhagnaður Plau af starfsemi á þriðja ársfjórðungi ársins nam 1,3 milljónum bandaríkjadala, um tvö hundruð milljónum króna, og sætanýtingin var um 85%.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, kynnir ársfjórðungsuppgjör félagsins klukkan 8.30. Horfa má á kynninguna í beinni útsendingu hér að neðan.
Þar kom einnig fram að ekki væri fyrirséð að áður útgefin spá um jákvæða rekstrarniðurstöðu af síðari hluta ársins standist vegna krefjandi ytri aðstæðna á mörkuðum, sem höfðu mikil áhrif á fjárhagslega frammistöðu í rekstrinum, eins og það var orðað í tilkynningunni.
„Almenn eftirspurn frá farþegum til Íslands var minni síðsumars en búast mátti við, þar sem mörg hótel voru uppbókuð og bílaleigubílar sömuleiðis. Afleiðing þessa var aukinn fjöldi tengifarþega í stað farþega til Íslands, sem skila minni tekjum. Hliðartekjur voru einnig minni en vænta mátti en þar skipti mestu aukin eftirspurn eftir handfarangri í stað innritaðs farangurs. Ástæða þeirra breytinga var ótti farþega við erfiðleika á flugvöllum víða um heim. Á sama tíma hélst olíuverð hátt. Allt hafði þetta óhjákvæmileg áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins.“
Forsvarsmenn félagsins virðast þó bjartsýnir á framtíðina.
„Play sér ört vaxandi bókunarflæði til landsins inn í veturinn og næsta ár. Ferðamálastofa spáir um 40% fleiri farþegum til landsins árið 2023 miðað við 2022, sem mun tvímælalaust skila sér í jákvæðum áhrifum á rekstur Play,“ sagði í tilkynningunni.