Á þessu fyrsta undanúrslitakvöldi af þremur tóku átta grunnskólar þátt en það voru Álftamýrarskóli, Breiðholtsskóli, Fellaskóli, Hagaskóli, Ingunnarskóli, Langholtsskóli, Rimaskóli, Vogaskóli.
Fellaskóli með atriðið Efra Breiðholt og Hagaskóli með atriðið Missir komust áfram í úrslitin. 191 ungmenni úr Reykjavík tóku þátt í atriðunum og sýndu hæfileika á sviði sviðslista í frumsömdum atriðum sem þau hafa samið sérstaklega fyrir stóra sviðið í Borgarleikhúsinu vegna Skrekks.

Undanúrslit Skrekks fara fram dagana 7., 8. og 9. nóvember í Borgarleikhúsinu, en að þessu sinni taka 614 unglingar úr 24 skólum þátt í keppninni. Átta skólar munu komast í úrslit sem fara fram 14. nóvember.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að atriðin í ár fjalli um sjálfsmynd unglinga, áhrif samfélagsmiðla, tónlistar- og danssögu, missi, einelti, andlega erfiðleika, upplifun ungmenna af erlendum uppruna, mikilvægi þess að njóta lífsins og hafa gaman, ádeilu á íslenskt samfélag, heimilisofbeldi og ástarsögur. Unglingarnir nýta allar sviðslistir í atriðin; tónlist, dans, leiklist og gjörninga.