Samkvæmt gildandi lögum skal eyða geymdum fósturvísum ef viðkomandi par slítur hjúskap eða óvígðri sambúð sinni þegar hámarksgeymslutími fósturvísa er ekki liðinn. Sama gildir ef annar aðilinn andast, nema um gjöf kynfrumna til notkunar við tæknifrjóvgun hafi verið að ræða.
Í frumvarpinu kemur fram að orðalag ákvæðisins bendi til þess að gert sé ráð fyrir að par sem samþykkir geymslu fósturvísa hafi hvort um sig lagt til kynfrumur sem urðu að fósturvísum. Svo virðist sem löggjafinn hafi ekki gert ráð fyrir því að staðan yrði önnur ef einungis annar aðilinn leggur til kynfrumur eða að réttarstaðan breytist ef aðstæður breytast.
„Í ljósi sífellt fjölbreytilegri fjölskylduforma geta komið upp tilvik sem gildandi lög ná ekki til eða hreinlega bjóða upp á mismunun. Nefna má sem dæmi þegar að tvær konur sem eignast fósturvísa í hjónabandi eða sambúð með gjafasæði og kynfrumum annarrar þeirra. Samkvæmt gildandi lögum ber að eyða fósturvísunum, þó að vilji beggja standi til þess að sú sem lagði til kynfrumurnar eða þær báðar nýti fósturvísana.
Þessu þarf löggjafinn að breyta og þess vegna mun heilbrigðisráðherra leggja fram frumvarp, sem breytir ákvæðunum laganna með þeim hætti að ekki skuli eyða fósturvísum ef fyrir liggur upplýst samþykki aðila um að slíkt skuli ekki gera. Um er að ræða mikið réttlætismál og ríkir hagsmunir standa til þess að þessu verði breytt sem allra fyrst. Við vinnuna verður hugað að annarri löggjöf sem breytingin gæti haft áhrif á, eins og erfðalöggjöf,“
segir jafnframt í frumvarpinu.