Ólafur var gestur áttunda og síðasta þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttar Stefáns Árna Pálssonar, þar sem farið er yfir leið íslenska handboltalandsliðsins að silfurverðlaunum á Ólympíuleikunum í Peking.
Í þættinum spurði Stefán Ólaf hver væri eftirminnilegasti leikurinn á hans langa ferli sem handboltamaður. Ólafur nefndi
„Það sem kemur fyrst upp í hugann er seinni úrslitaleikurinn við Kiel,“ sagði Ólafur og vísaði þar til úrslita Meistaradeildar Evrópu 2008. Ciudad Real, sem Ólafur lék með, tapaði fyrri leiknum í Madríd, 27-29, og var því í afar erfiðri stöðu fyrir seinni leikinn í Kiel.
Í undirbúningnum fyrir seinni leikinn fannst Ólafi Talant Dujshebaev, þjálfari Ciudad Real, vera full niðurlútur.
„Þú átt eiginlega ekki að geta unnið Kiel á heimavelli þeirra þannig að það var ákveðið sjokk fyrir allt og jafnvel fyrir hann,“ sagði Ólafur.
„Það reiknaði enginn með að við myndum vinna leikinn. En þá datt ég í eitthvað sturlað flæði sem ekki er hægt að plana. Ég var líka smá reiður út í Talant. Mér fannst hann hafa gefist smá upp á okkur sem var mjög óvanalegt hjá honum. Hann átti kæruleysislegan fund fyrir leikinn en kannski var hann það klár að hann bjó til það andrúmsloft í manni.“
Ólafur átti stórkostlegan dag gegn í seinni leiknum og skoraði tólf mörk í sex marka sigri Ciudad Real, 25-31.
„Allt liðið datt í eitthvað flæði á meðan Kiel hitti ekki á þetta. Það er eftirminnilegasti leikurinn því þetta var svo óvænt. Þetta var klikkaður leikur og ég vissi ekki að ég ætti þetta inni,“ sagði Ólafur.
„Ég var alltof varfærinn í fyrri leiknum og skaut ekki nóg. Ég fór inn í leikinn að ég mætti ekki hika; bara hrökkva eða stökkva,“ bætti Ólafur við en hann skoraði samt sex mörk í fyrri leiknum og því átján mörk alls í úrslitaeinvíginu.
Ciudad Real og Kiel mættust aftur í úrslitum Meistaradeildarinnar árið eftir. Aftur vann Ciudad Real og aftur var Ólafur besti leikmaður einvígisins en hann skoraði fjórtán mörk í því.
Hlusta má á áttunda þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.