Tilnefningar til BAFTA verðlaunanna voru tilkynntar í dag. Fyrr í mánuðinum var birtur svokallaður stuttlisti og kom nafn Hildar tvisvar fyrir á þeim lista, annars vegar fyrir tónlistina í kvikmyndinni Tár og hins vegar fyrir tónlistina í kvikmyndinni Women Talking.
Lokatilnefningarnar eru valdar af þeim lista en Hildur var ekki tilnefnd í þetta skiptið. Ellefu tónskáld voru á stuttlistanum en aðeins fimm voru tilnefnd.
BAFTA verðlaunahátíðin fer fram sunnudaginn 19. febrúar í Royal Festival Hall í London. Tilnefningarnar má sjá hér.
Hildur hefur sópað að sér verðlaunum síðustu ár. Fyrr í vikunni vann hún til verðlauna á Critics' Choice verðlaunahátíðinni og fyrr í mánuðinum var hún tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna. Þá vann hún Óskarsverðlaunin eftirminnilega, sem og Grammy verðlaunin og BAFTA verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.