„Við Þormóður erum búnir að sitja á þessu lagi í smá tíma núna,“ sagði Herra Hnetusmjör í viðtali í Brennslunni í morgun. Hann á þá við Þormóð Eiríksson, einn vinsælasta pródúsent landsins.
Þeir félagar voru ekki alveg vissir hvað þeir vildu gera við þetta lag. Að lokum ákváðu þeir að fá einn vinsælasta söngvara landsins, Friðrik Dór, til þess að vera með þeim í laginu.
Í dýpri kantinum
„Beisiklí fjallar lagið um smá togstreitu. Þetta er svona í dýpri kantinum miðað við mig. Ég er ekkert að gera upp einhver mál. En þetta er svona smá togstreita og svo er boðskapurinn að halda áfram,“ lýsir Herra Hnetusmjör.
Herra Hnetusmjör gaf út óvenju fá lög á síðasta ári. Hann segir þó að þetta lag sé aðeins byrjunin á stóru útgáfuári hjá honum.
Hér fyrir neðan má hlusta á lagið í heild sinni en það er einnig aðgengilegt á streymisveitunni Spotify.
„Það er eiginlega gott fyrir keppendur að mitt atkvæði gildir „nada“ í kvöld“
Þrátt fyrir að hafa gefið út fá lög undanfarin misseri, hefur Herra Hnetusmjör haft í nógu að snúast. Hann hefur undanfarna mánuði setið í dómnefnd Idolsins, ásamt þeim Birgittu Haukdal, Bríeti og Daníel Ágústi.
Í kvöld fara fram fjögurra manna úrslit í Idolhöllinni. Einn keppandinn, Símon Grétar, lægst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og ætlar að flytja lagið Vangaveltur eftir Herra Hnetusmjör.
„Það er náttúrlega auka pressa. Ég þekki hvert andartak í laginu, enda samdi ég það með honum Ásgeiri Orra. Ég er ógeðslega spenntur. Ef ég þyrfti að óska mér einhvern Idol keppanda að taka eitthvað lag, þá væri það Símon að taka Vangaveltur. Það er eiginlega bara gott fyrir keppendur að mitt atkvæði gildir „nada“ í kvöld, það er þjóðin sem kýs.“
Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið við Herra Hnetusmjör í heild sinni.