ÍBV hefur verið að bæta í hópinn undanfarnar vikur en töluverðar breytingar hafa orðið hjá félaginu frá því á síðustu leiktíð. Þjálfarinn Jonathan Glenn fékk ekki áframhaldandi samning og hélt til Keflavíkur og tók Todor Hristov við starfi hans en hann hefur þjálfað yngri flokka í Eyjum síðustu árin.
Í gær gekk ÍBV frá samningi við bandaríska miðjumanninn Caeley Lordemann sem kemur frá North Carolina Courage í bandarísku deildinni en hún á einnig að baki leiki með Santa Teresa í efstu deild á Spáni. Á lokaári sínu í bandaríska háskólaboltanum skoraði hún ellefu mörk í tuttugu leikjum með liði Colorado State.
Auk Lordemann hefur ÍBV fengið til sín Holly O´Neill frá Bandaríkjunum og Camila Pescatore sem leikur með landsliði Venesúela. Þá hafa lykilleikmennirnir Haley Thomas, Kristín Erna Sigurlásdóttir, Júlíana Sveinsdóttir og Viktorija Zaicikova allar framlengt samninga sína við ÍBV.