Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem farið er yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.
Kona var handtekin fyrir utan bráðamóttökuna eftir að hafa verið til vandræða í og við sjúkrabifreið. Hún var vistuð í fangaklefa. Ofurölvi karlmaður var einnig vistaður í fangaklefa eftir að hafa ekki getað greitt fyrir leigubílafar eða gefið upp hvert hann vildi láta aka sér.
Manni var vísað út af hóteli í miðbænum eftir að hafa verið þar til vandræða. Hann er ekki velkominn aftur á hótelið og þarf að finna sér annan samastað.
Karlmaður var handtekinn eftir líkamsárás á hóteli í Hafnarfirði. Hann var vistaður í fangaklefa en árásarþoli var fluttur á bráðamóttöku.