Breytingar urðu á stjórn Vinstri grænna á Landsfundi flokksins í dag. Forsætisráðherra og formaður flokksins segir áhuga Landsfundargesta ákveðna vítamínsprautu fyrir hreyfinguna sem hefur glímt við erfið mál að undanförnu. Nýjar stefnur í málefnum fatlaðs fólks og í orkumálum voru meðal annars afgreiddar í dag.
Við ræðum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í beinni útsendingu um kvennaþing sem fram fór í dag.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru nú beðnir um að aðgreina plast í fjóra flokka og skila á endurvinnslustöðvar Sorpu sem netverjar hafa sumir býsnast yfir og segja flokkun orðna allt of flókna. Þróunarstjóri Sorpu segir að félagið hafi verið eftirbátur í endurvinnslu og að töluverðar breytingar séu í farvatninu.
Þá kíkjum við í Laugardalshöll þar sem húsfylli var á kynningu á iðn- og verkgreinanámi og segjum frá heldur óvenjulegri messu sem fram fer í stærsta fjósi Suðurlands á morgun.
Þetta og fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu klukkan 18:30.