Á vef Veðurstofunnar segir að appelsínugila viðvörunin taki gildi klukkan 19 í kvöld og gildi í allan dag á morgun.
„Talsverð eða mikil snjókoma eða skafrenningur með þungri færð og lélegu skyggni, einkum norðantil á svæðinu. Miklar líkur á samgöngutruflunum,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Sömuleiðis hefur verið gefin út gul viðvörun frá klukkan 15 á morgun til miðnættis vegna rigninga og asahláku syðst á svæðinu. „Talsverð rigning og hlýnandi veður sunnantil á svæðinu. Búast má við asahláku og auknu afrennsli og vatnavöxtum.“

Á vef Veðurstofunnar segir að mikil hætta sé á snjóflóðum á Austfjörðum í dag og mjög mikil hætta á snjóflóðum á morgun og föstudag.
Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum og er hættustig í gildi í Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði. Nokkur snjóflóð féllu í Neskaupstað, á Seyðisfirði, í Reyðarfirði og í Mjóafirði á mánudag.