„Þetta er ókeypis, við erum að bjóða upp á fimmtán fyrirspurnir á hvert tæki,“ segir Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Miðeindar, í samtali við fréttastofu. Virknin verður til prófunar í eina viku. Mun GPT-4 á þeim tíma geta svarað þeim fyrirspurnum sem Embla kann ekki þegar svör við.
Miðeind hefur verið í samstarfi með OpenAI undanfarna mánuði til að sérþjálfa nýjasta mállíkan fyrirtækisins, GPT-4 í íslensku. „Afrakstur þess samstarfs má sjá á stórbættri íslenskukunnáttu risamállíkansins GPT-4 og vænta má enn betri niðurstaðna á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningu frá Miðeind.
Áhugasöm geta prófað að tala við gervigreindarlíkanið á íslensku heima hjá sér í smáforritinu Emblu sem finna má í Apple AppStore fyrir iPhone og Google PlayStore fyrir Android.