Íslendingurinn knái skoraði bæði mörk Elfsborg í leiknum en um er að ræða annan sigur liðsins á yfirstandandi tímabili.
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós strax á 6.mínútu en þar var að verki téður Sveinn Aron Guðjohnsen.
Eftir langa sendingu fram völlinn tókst Sveini Aroni, eftir mikið harðfylgi að ná til knattarins, hann gerði síðan virkilega vel í að koma honum fram hjá Sondre Rossbach sem varði mark Degerfors.
Sveinn Aron Gudjohnsen ger bortalaget ledningen! 1-0 IF Elfsborg på Stora Valla pic.twitter.com/R6UhvMu3Fe
— discovery+ sport (@dplus_sportSE) April 22, 2023
Elfsborg því komið 1-0 yfir og þannig stóðu leikar allt þar til skömmu fyrir lok fyrri hálfleiksins. Á 43. mínútu náði Damjan Pavlovic, leikmaður Degerfors að jafna metin fyrir heimamenn eftir stoðsendingu frá Rasmus Örqvist.
Það var þó nógu mikið eftir af leiknum fyrir Svein Aron Guðjohnsen til þess að virkja töfrana í leik sínum einu sinni til viðbótar.
Á 60. mínútu skoraði hann sigurmarkið og seinna mark sitt í leiknum með skalla eftir stoðsendingu frá Niklas Hult.
2-1 IF Elfsborg! Sveinn Aron Gudjohnsen nickar in bollen via ribban pic.twitter.com/5Yoc0z0gct
— discovery+ sport (@dplus_sportSE) April 22, 2023
Elfsborg fór því heim með stigin þrjú sem í boði voru en sigurinn sér til þess að liðið er sem stendur í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki. Liðin fyrir neðan eiga þó flest öll leik til góða.